Fréttir

Hinrik Ö. Lárusson keppir í Bocuse d’Or: „Ferðalagið hefst í dag“

Matreiðslumaðurinn Hinrik Örn Lárusson keppir fyrir Íslands hönd í virtustu matreiðslukeppni heims, Bocuse d’Or. Ekran er nýr bakhjarl Bocuse d’Or akademíu Íslands og var samstarfssamningurinn undirritaður á blaðamannafundi í hádeginu í dag.

Bocu­se d’Or hefur verið haldin síðan 1987 í Lyon í Frakklandi en eingöngu 24 þjóðir fá keppn­is­rétt eft­ir að hafa kom­ist í upp úr for­keppni í sinni heims­álfu. Hinrik Örn lærði matreiðslu á Hótel Sögu, stofnaði Lux veitingar, var matreiðslumaður ársins 2024 og hefur áður keppt í Bocuse d’or svo óhætt er að segja hann sé hokinn af reynslu. Tveggja ára ferðalag Hinriks hefst í dag þar sem allt er lagt undir, hann stefnir alla leið og ætlar sér að næla í gullið.

„Mér líst vel á þetta tveggja ára ferðalag og hlakka til að hefja störf. Ferðalagið hefst í dag og ég byrja á öllu sem er utan eldhússins, smíða teymið í kringum keppnina, finna aðstoðarfólk, hitta hönnuði, markaðsfólk og fleira sem verður skemmtilegt.” segir Hinrik.

„Þessi keppni er ekki aðeins sú virtasta heldur líka sú skemmtilegasta. Þetta er eins og að fara á leik í enska boltanum.” segir Þráinn Freyr Vigfússon varaforseti Bocus D’or akademíunnar á Íslandi.

Ísland hefur átt fulltrúa í keppninni síðan 1999 og alltaf verið meðal 10 efstu þjóða að keppni lokinni. Aðspurðir segja þeir slíkur árangur náist ekki nema fyrir tilstilli góðra bakhjarla og styrktaraðila og eru þeir þeim gríðarlega þakklátir fyrir stuðninginn.

Starfsfólk Ekrunnar hlakkar til að fylgjast með undirbúningi Hinriks við keppnina og við óskum honum góðs gengis í verkefnunum framundan.

Hinrik Örn Lárusson matreiðslamaður og keppandi í Bocuse d’Or.

Daníel Jón Ómarsson sölufulltrúi hjá Ekrunni, Hinrik Örn Lárusson matreiðslumaður og keppandi í Bocuse d’Or ásamt Hildi Erlu Björgvinsdóttur framkvæmdastjóra Ekrunnar.